Blóðgjafafélag Íslands BGFÍ

The Blood Donors Society of Iceland


BGFÍ

Nafn:

BGFÍ Blóðgjafafélag Íslands

Farsími:

8930733

Afmælisdagur:

16. júlí 1981

Heimilisfang:

Snorrabraut 60, 101 Reykjavík

Kennitala:

700781-0389

Bankanúmer:

512-14-100900

Blóðgjafar á Facebook

Blóðgjafar geta nú merkt prófíl mynd sína á Facebook með merki Blóðgjafafélags Íslands með því að smella á merkið hér að neðanTenglar

19990312 BH Fjármögnun Blóðgjafafélagsins

Fjármögnun Blóðgjafafélagsins

Frá Birni Harðarsyni:

ÞANN 24. febrúar síðastliðinn var haldinn aðalfundur BGFÍ í húsakynnum Landspítalans. Efni fundarins var með hefðbundnu aðalfundarsniði. Hetjublóðgjöfum veitt viðurkenningarskjöl fyrir að hafa gefið 50, 75 og 100 sinnum blóð. 51 blóðgjafi fékk viðurkenningu fyrir 50 blóðgjafir, 11 fyrir 75 gjafir og 3 fyrir að hafa gefið blóð 100 sinnum. Að auki fékk "gjafakóngurinn" okkar viðurkenningu fyrir 125 blóðgjafir. Þeir sem náðu 100 gjafa markinu að þessu sinni voru: Hávarður Emilsson, Sölvi Þór Þorvaldsson og Ögmundur Kristinsson. Sem fyrr er Þórður Bergmann Þórðarson sá sem gefið hefur manna mest af blóði hér á landi. Stjórn félagsins var endurkjörin.

Fræðsluerindi voru flutt á fundinum. Þar sagði Pétur Þorsteinsson stjórnarmaður í BGFÍ frá heimsókn sinni til Damnerkur þar sem hann kynntist starfsemi blóðgjafasamtakanna þar í landi. Í máli hans kom fram sá gífurlegi aðstöðumunur sem er á félögunum þar og hér, en þar eru blóðgjafafélögin viðurkennd sem nauðsynlegur hluti af blóðgjafastarfseminni. Sigríður Ósk Lárusdóttir hjúkrunarfræðingur í Blóðbankanum sagði frá verkefni um heilsueflingu blóðgjafa sem er að fara í gang í Blóðbankanum. Sveinn Guðmundsson forstöðulæknir í Blóðbankanum sagði frá því helsta sem er á döfinni í Blóðbankastarfseminni. Í máli hans kom fram að Blóðbankinn vill auka gæði þjónustu við blóðgjafana með bættum aðbúnaði í húsinu og sérhæfðum blóðtökubíl. Forstjóri Ríkisspítala og Sjúkrahús Reykjavíkur, Magnús Pétursson, þakkaði blóðgjöfum fyrir sitt framlag.

Á fundinum kom fram í ræðu formanns félagsins, Björns Harðarsonar, að á síðastliðnu ári gekk BGFÍ í alþjóða blóðgjafasamtökin (IFBDO) og að haldið var í fyrsta sinn hér á landi hátíðlega upp á 23. maí sem er alþjóðlegur blóðgjafadagur. Um verkefni framtíðarinnar kom fram í máli formanns að Blóðgjafafélag Íslands er vettvangur blóðgjafa til að hafa áhrif á málefni blóðgjafastarfseminnar á Íslandi. Þar ber hæst: Betri aðbúnað fyrir blóðgjafa. Þótt breytingar á húsnæði sem gerðar hafa verið innan Blóðbankans á undanförnum árum hafi tekist mjög vel og verið til bóta, þá er öllum ljóst sem til þekkja að starfsemi Blóðbankans, sem stofnaður var árið 1953, er búin að sprengja utan af sér húsnæðið.

Sjúkratryggingar blóðgjafa. Hér er átt við tilfelli sem geta komið upp á við blóðgjöf og eru þess valdandi að blóðgjafi verði frá vinnu um tíma eða þurfi að standa straum af rannsóknum af einhverju tagi. Í Danmörku er talið að í einu tilfelli af hverjum átta þúsund blóðgjöfum þurfi að grípa til ákvæða um sjúkratryggingar blóðgjafa. Við getum án efa dregið nokkurn lærdóm af Dönum í þessum efnum.

Marka stefnu BGFÍ. Á fundi með ráðherra heilbrigðismála hefur komið fram skilningur og vilji ráðuneytisins um að hér á landi séu starfandi blóðgjafasamtök og tryggja verið starfsgrundvöll þeirra. Stjórn BGFÍ hefur skriflega óskað eftir viðræðum hagsmunaðila um hvernig þessum málum verði best komið.

Öruggur rekstrargrundvöllur BGFÍ. Í Blóðbankanum hefur skapast möguleiki á að safna og senda utan blóðvökva til fullvinnslu lyfja. Þrátt fyrir ítrekaðan vilja stjórnar BGFÍ til viðræðna við heilbrigðisyfirvöld um ráðstöfun þessarar vöru, þá hefur ekki enn sem komið er verið óskað eftir athugasemdum frá fulltrúum blóðgjafa. Stjórn BGFÍ hefur lagt áherslu á að tryggja verði að sjálfboðaliðstarf blóðgjafa nýtist til að styrkja blóðbankaþjónustu á Íslandi, efla meðferð sjúklinga og skapa rekstrargrundvöll fyrir BGFÍ til framtíðar. Í maí á þessu ári verður haldin heimsráðstefna blóðgjafasambanda á Ítalíu. Við eigum fullt erindi þangað þar sem við getum bæði lært og miðlað af okkar reynslu. Eins og rekstrarmálum BGFÍ er háttað getur stjórn félagsins ekki sent fulltrúa sinn. Stjórn félagsins hefur farið þess á leit við heilbrigðisráðuneytið að fá styrk til fararinnar, en án árangurs. Fátt er því til fyrirstöðu að hefja fullvinnslu lyfja úr blóðvökva. Að mati stjórnar BGFÍ þarf aðeins að taka ákvarðanir og tryggja rekstrargrundvöll félagsins.

Stækkun BGFÍ. Á blóðgjafasvæði Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar er verið að kanna hvort vilji sé þar á bæ til að stofna deild innan BGFÍ. Rætt hefur verið um stofnun beinmergsgjafaskrár. Erlendis koma beinmergsgjafar í miklum meirihluta úr hópi blóðgjafa og vaknar sú spurning hvort BGFÍ verði hagsmunaaðiðli bæði blóðgjafa og beinmergsgjafa. Stjórn félagsins mun fylgjast með af áhuga og er tilbúið til viðræðna hvenær sem er.

BJÖRN HARÐARSON,

formaður Blóðgjafafélags Íslands.