Blóðgjafafélag Íslands BGFÍ

The Blood Donors Society of Iceland


BGFÍ

Nafn:

BGFÍ Blóðgjafafélag Íslands

Farsími:

8930733

Afmælisdagur:

16. júlí 1981

Heimilisfang:

Snorrabraut 60, 101 Reykjavík

Kennitala:

700781-0389

Bankanúmer:

512-14-100900

Blóðgjafar á Facebook

Blóðgjafar geta nú merkt prófíl mynd sína á Facebook með merki Blóðgjafafélags Íslands með því að smella á merkið hér að neðanTenglar

20010908 ÓHK Frá hjartanu

Frá hjartanu

Undirritaður var 18 ára nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík þegar hann ásamt fleiri skólafélögum lagði leið sína í Blóðbankann við Barónsstíg í Reykjavík. Fyrsta blóðgjöfin er minnisstæð fyrir það að hún var fullkomlega þrautalaus og allt gekk vel. Minningin er fyrst og fremst um þægilegt og vingjarnlegt starfsfólk, sem sýndi okkur virðingu og alúð, að ógleymdu kaffinu og meðlætinu á eftir, sem var mikill bónus auralitlum menntskælingum. Kynni sem hófust fyrir nærri þrjátíu árum, í marz 1972, eru endingarbeztu samskipti við nokkurn banka, sem minnið nær til, þótt margir séu ágætir.

Blóðgjafirnar voru ekki ýkja margar fyrstu tvö árin, fór fjölgandi og nálgast nú hundraðið. Auðvelt var að gefa sér tíma frá háskólanámi og skreppa í Blóðbankann. Alltaf var tilhlökkunarefni að hitta þægilegt og alúðlegt starfsfólk bankans. Kaffistofan hefur staðið fyrir sínu og konurnar þar láta ekki sitt eftir liggja. Stundum hefur hvarflað að manni, í gamni sagt, að eins gott sé að á milli heimsókna karla skuli vera 3 mánuðir og minnst 4 þegar konur eiga í hlut. Baráttan við vigtina væri annars töpuð. Að loknu námi átti undirritaður heimili á Selfossi í rúm sex ár og flutti svo til Ísafjarðar fyrir sautján árum. Tengslin við Blóðbankann hafa aldrei rofnað. Þau tækifæri sem hafa gefizt voru notuð.

Það verður góður lífsstíll að vera blóðgjafi. Tvennt kemur til, í fyrsta lagi nýtur blóðgjafinn þess að fylgzt er með blóðþrýstingi, blóðmagni og heilsufari. Í öðru lagi lagar hann líf sitt að hlutverkinu, ef svo má að orði komast.

Minnt er á þá staðreynd að Blóðbankinn þarfnast 70 blóðgjafa á dag og margir eiga undir því að vel takist til. Allir sem eru heilbrigðir á aldrinum 18 til 60 ára mega gerast blóðgjafar. Þeirri hvatningu er beint til allra jafnt á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðarfólks á ferðinni í Reykjavík að gerast blóðgjafar.

Einkum er þessum orðum beint til hinna fjölmörgu ungu kvenna og karla sem eru að hefja nám í framhaldsskólum og háskólum í Reykjavík um þessar mundir. Gott er að taka sér hlé frá lestri og líta við í Blóðbankanum, gefa frá hjartanu og njóta alúðlegs viðmóts og hollra og góðra veitinga. Undirritaður gladdist mjög þegar dóttir hans ákvað að feta í fótspor föður síns og gerast blóðgjafi.

Blóðbankinn heldur úti ágætri heimasíðu www. blodbankinn.is. Afgreiðslutími er mánudaga og fimmtudaga frá kl. 8:00-19:00, þriðjudaga og miðvikudaga frá kl. 8:00-15:00 og föstudaga frá kl. 8:00-12:00

Að vera virkur blóðgjafi er sannarlega hluti af þeim lífsstíl sem kenndur er við hollustu og heilbrigði. Ef þú lesandi góður uppfyllir skilyrði til þess að gerst blóðgjafi geturðu með þeim hætti lagt lífinu lið. Gerðu það og njóttu lífsins.

Höfundur er sýslumaður á Ísafirði og virkur blóðgjafi.