Blóðgjafafélag Íslands BGFÍ

The Blood Donors Society of Iceland


BGFÍ

Nafn:

BGFÍ Blóðgjafafélag Íslands

Farsími:

8930733

Afmælisdagur:

16. júlí 1981

Heimilisfang:

Snorrabraut 60, 101 Reykjavík

Kennitala:

700781-0389

Bankanúmer:

512-14-100900

Blóðgjafar á Facebook

Blóðgjafar geta nú merkt prófíl mynd sína á Facebook með merki Blóðgjafafélags Íslands með því að smella á merkið hér að neðanTenglar

20031111 BH 50 ára afmæli Blóðbankans

50 ára afmæli Blóðbankans

FYRIR 50 árum var Blóðbankinn settur á stofn. Starfsemi hans var fundinn staður í litlu húsi efst í Landspítalareitnum á horni Eiríksgötu og Barónsstígs.

Fyrst voru starfsmenn í Blóðbankanum þrír en fjölgaði fljótlega í fimm. Blóðgjafir voru liðlega fimm hundruð á ári fyrstu árin og blóði var safnað í glerflöskur.

Frá stofnun Blóðbankans hefur starfsemi hans aukist jafnt og þétt í samræmi við kröfur hvers tíma. Glerflöskurnar viku fyrir sérútbúnum söfnunarpokum sem opnaði möguleika á blóðhlutavinnslu.

Allt blóð sem blóðgjafarnir gefa í Blóðbankanum er unnið í grunnþætti þess ásamt því sem vaxandi hluti blóðhlutanna fer í áframhaldandi sérvinnslu. Nú eru gefnar 14-15 þúsund blóðgjafir árlega í Blóðbankanum og heimsóknir blóðgjafa og annarra munu vera um 17-18 þúsund á hverju ári.

Rannsóknir hverskonar hafa aukist jafnt og þétt. Hluti mæðraeftirlits sem snýr að blóðflokkun og mótefnaleit hefur verið hluti starfsemi Blóðbankans til margra ára.

Smitvarnir með tilkomu prófa, fyrst gegn lifrarbólgu veiru B, þá HIV og svo lifrarbólgu veiru C ásamt blóðflokkunum hverskonar eru hluti hversdags öryggisráðstafana sem gerðar eru.

Stöðugt banka á dyr áleitnar spurningar um ný próf og aðferðir sem tryggja eiga öryggi enn frekar.

Árið 2000 hlaut Blóðbankinn viðurkenningu á að starfsemin þar er samkvæmt alþjóðlegu gæðakerfi. Fyrsta og eina stofnunin innan íslenska heilbrigðiskerfisins sem hlotið hefur slíka viðurkenningu. Reglulegt gæðaeftirlit með framleiðslu og þjónustu við blóðgjafa sem og aðra viðskiptavini Blóðbankans er viðfangsefni líðandi stundar. Þannig hefur Blóðbankinn skapað sér sérstöðu sem margir líta nú til.

Kannanir hafa sýnt að velvild almennings til Blóðbankans á fáa sér líka á Íslandi enda á Blóðbankinn og reyndar heilbrigðiskerfið allt sitt undir velvild almennings. Án blóðgjafanna værum við ekki með heilbrigðiskerfi í þeirri mynd sem við þekkjum nú.

Í dag 50 árum frá stofnun Blóðbankans er hann enn í sama litla húsinu efst í Landspítalareitnum á horni Eiríksgötu og Barónsstígs.

Margar af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á húsnæði Blóðbankans vegna tilkomu nýrra verkferla á undanförnum árum hafa gengið á það rými sem blóðgjöfum var ætlað og er svo komið að brýnna úrlausna er þörf þar á. Þrengslin innan Blóðbankans hamla frekari þróun hans. Þróun sem Blóðbankinn hefur sýnt að hann er fullmegnugur að standa undir og hefur skipað honum í fremstu röð meðal jafningja.

Blóðgjafarnir kvarta ekki hátt, en það sjá allir sem sjá vilja að sú aðstaða sem þeim er boðin samræmist ekki því fórnfúsa starfi sem þeir inna af hendi. Móttaka blóðgjafa, kaffistofa þeirra, þótt rómuð sé, salernisaðstaða, allt eru þetta dæmi um ófullnægjandi aðstöðu.

Verum nú samtaka um að skapa Blóðbankanum þann sess sem hann hefur sýnt að hann er megnugur með ómissandi starfsemi sinni í þágu heilbrigðis á Íslandi. Tryggjum Blóðbankanum aukið rými blóðgjafaþjónustunni til heilla.

Íslendingar, til hamingju með 50 ára afmæli Blóðbankans.

Eftir Björn Harðarson

Höfundur er formaður Blóðgjafafélags Íslands.