Blóðgjafafélag Íslands BGFÍ

The Blood Donors Society of Iceland


BGFÍ

Nafn:

BGFÍ Blóðgjafafélag Íslands

Farsími:

8930733

Afmælisdagur:

16. júlí 1981

Heimilisfang:

Snorrabraut 60, 101 Reykjavík

Kennitala:

700781-0389

Bankanúmer:

512-14-100900

Blóðgjafar á Facebook

Blóðgjafar geta nú merkt prófíl mynd sína á Facebook með merki Blóðgjafafélags Íslands með því að smella á merkið hér að neðanTenglar

20031114 SG Framtíðin byggist á öryggi

Framtíðin byggist á öryggi og gæðum ... trausti og þakklæti til íslenskra blóðgjafa

ÁRIÐ er 1953. Rúmlega 50 árum áður hafði vísindamaðurinn Karl Landsteiner í Austurríki uppgötvað ABO-blóðflokkana. Um nokkurra áratuga skeið höfðu blóðgjafir sannað gildi sitt við sjúkdóma, skurðaðgerðir, slys, og ekki síst í stríði um allan heim. Blóðbanki er stofnaður við Barónsstíg. Stórhuga frumkvöðlar með skýra framtíðarsýn höfðu unnið að því að skapa hugmyndinni skilning og undirbúa starfið. Blóðbanki var byggður af stórhug, með þarfir næstu ára að leiðarljósi. Á árunum áður höfðu sjálfboðaliðasveitir skáta og annarra verið duglegar við blóðgjafir, sem fóru fram inni á sjúkrahúsunum.

Nú 50 árum síðar njótum við ennþá ávaxtanna af ötulu starfi frumkvöðlanna, sem byggðu húsnæði af stórhug, þó að þeir hafi tæplega reiknað með því að húsið þyrfti 50 árum síðar að hýsa margfalda starfsemi.

Öryggi blóðþega

Á fyrstu árum starfseminnar var tækjabúnaður frumstæður á mælikvarða dagsins í dag, en í dag er háþróaður tækjabúnaður mikilvægur þáttur starfseminnar. Enn sem áður byggist starfsemin á því að eiga vel þjálfaða starfsmenn í sínum röðum. Á síðustu áratugum hafa náðst mikilvægir áfangar til að tryggja öryggi blóðhluta. En leiðin hefur verið þyrnum stráð. Vart þarf að minna á þær ógnir sem steðjuðu að almenningi um allan heim á níunda áratugnum vegna HIV-smitaðra blóðhluta, en greiningaraðferð til að auka öryggi blóðhluta kom fyrst árið 1985. Áður fyrr var ekki hægt að greina smit með lifrarbólgu C, en með tilkomu nýrra prófa í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar mátti minnka þessu áhættu verulega.

Nú er svo komið að á Vesturlöndum er nú öruggara að þiggja blóð, en nokkru sinni áður. Á hinn bóginn er umræða um öryggi og gæði blóðhluta ennþá áberandi og tillfinningarík. Þetta endurspeglar þá staðreynd að allur þorri almennings gerir miklar kröfur um öryggi blóðhluta, og stjórnvöld flestra landa líta á það sem eitt af mikilvægustu forgangsmálum sínum að skapa blóðbankaþjónustunni góðar aðstæður til að ná takmarki sínu: að tryggja öryggi og gæði blóðhluta.

Víða um heim er blóðbankaþjónusta í molum, hvort sem litið er til Asíu, Afríku og fjölmargra annarra fátækra svæða í heiminum. Almenningur í þeim löndum eygir vart örugga blóðbankaþjónustu á næstu árum, þrátt fyrir ötult starf WHO og Alþjóða Rauða krossins og hálfmánans.

Öflugir íslenskir blóðgjafar

Undirstaða blóðbankaþjónustu um allan heim er traustur hópur blóðgjafa. Á Íslandi er á hverju ári safnað u.b.b. 5.000 einingum blóðs frá u.þ.b. 10.000 blóðgjöfum. Ómetanlegt framlag íslenskra blóðgjafa er undirstaða heilbrigðisþjónustu nútímans. Ekki væri hægt að veita nauðsynlega meðferð við krabbameinum og illkynja blóðsjúkdómum án blóðgjafa. Margir nýburar á vökudeild Barnaspítala Hringsins þurfa blóð til að komast til þroska og eðlilegs lífs. Við mikil meiðsli vegna slysa þarf blóðhluta í skurðaðgerðum, auk þess sem blóðhlutar eru notaðir við hjartaaðgerðir, liðskipti, aðgerðir í kviðarholi og ýmsar skurðaðgerðir vegna krabbameina.

Á þessu 50 ára afmæli Blóðbankans skulum við líta um öxl og minnast með þakklæti starfs frumkvöðla og starfsmanna bankans á 50 ára vegferð. Fyrst og fremst skulum við þakka ómetanlegt starf íslenskra blóðgjafa, sem eru sjálfboðaliðar sem gefa blóð af mannúð, til að liðsinna sjúkum og bjarga mannslífum.

Öflugur blóðbankabíll

Rauði kross Íslands gaf fullkominn blóðsöfnunarbíl árið 2002. Þessi blóðbankabíll er mikilvæg undirstaða þess að Ísland nái að afla nýrra blóðgjafa til að sinna þörfum íslenskrar heilbrigðisþjónustu á næstu áratugum. Í dag er ánægjulegt að finna áhuga fyrirtækja og félagasamtaka á að hjálpa Blóðbankanum að kynna starfsemi sína og afla nýrra blóðgjafa. Íslenskir blóðgjafar gera okkur ennþá mögulegt að reiða okkur á eigin blóðsöfnun, og gera innflutning blóðs frá útlöndum óþarfan.

Horfum til framtíðarinnar

En gleymum aldrei að líta til framtíðar. Í framtíðinni bíða Blóðbankans erfið og ögrandi verkefni líkt og síðustu ár og áratugir hafa verið viðburðarík. Sagan kennir okkur fagfólkinu í Blóðbankanum og íslenskum yfirvöldum að við megum aldrei sofna á verðinum. Krafa almennings um örugga blóðhluta kallar á sívökul augu en jafnframt kröftugt og samstillt starf hér á landi. Alþjóðlegar kröfur Evrópuráðsins og Evrópusambandsins munu enn sem áður skapa umgjörð okkar starfsemi á næstu áratugum. Alþjóðleg ISO 9000 vottun Blóðbankans árið 2000 var áfangi. Okkar bíður framtíðin með kröfu um að framleiða örugga blóðhluta í þágu sjúklinga. Íslenskt þjóðfélag verður að sýna tilhlýðilega virðingu fyrir ómetanlegu framlagi blóðgjafa og tryggja öryggi þeirra í hvívetna. Við getum tekist á við krefjandi verkefni framtíðarinnar í nýju húsnæði um áramótin 2004/2005.

Traust og þakklæti

Blóðbankinn vill vera dæmdur af verkum sínum. Við óskum þess að vera undir ströngu alþjóðlegu eftirliti og sívökulu auga og miklum kröfum almennings. Þannig getum við best sýnt framúrskarandi frammistöðu. Ekkert minna dugar. Við vinnum í umboði almennings og njótum í dag trausts Íslendinga til að tryggja öryggi blóðgjafa og blóðþega. Við munum vinna ötullega til að verðskulda nauðsynlegt traust og stuðning almennings á komandi áratugum.

Blóðbankinn þakkar traust og stuðning síðustu 50 ára. Við viljum eiga samleið með ykkur sem þetta lesið inn í framtíðina, framtíð sem byggist á öryggi og gæðum okkar starfs, trausti allra Íslendinga...og þakklæti til íslenskra blóðgjafa. Þá er framtíðin björt og næstu 50 ár tilhlökkunarefni.

Eftir Svein Guðmundsson

Höfundur er yfirlæknir Blóðbankans.