Blóðgjafafélag Íslands BGFÍ

The Blood Donors Society of Iceland


BGFÍ

Nafn:

BGFÍ Blóðgjafafélag Íslands

Farsími:

8930733

Afmælisdagur:

16. júlí 1981

Heimilisfang:

Snorrabraut 60, 101 Reykjavík

Kennitala:

700781-0389

Bankanúmer:

512-14-100900

Blóðgjafar á Facebook

Blóðgjafar geta nú merkt prófíl mynd sína á Facebook með merki Blóðgjafafélags Íslands með því að smella á merkið hér að neðanTenglar

20050426 SÓL Sjötíu á dag

Sjötíu á dag


Sigríður Ósk Lárusdóttir

Á DEGI hverjum koma tugir manna, bæði karlar og konur, í Blóðbankann við Barónsstíg í Reykjavík til þess að færa sjúkum samlöndum sínum gjöf. Þesssi gjöf felst í því að gefa blóð sem síðan er notað til þess að lækna og líkna alvarlega sjúku eða slösuðu fólki.

Framlag blóðgjafanna er íslenskri heilbrigðisþjónustu ómetanlegt og verður fórnfýsi blóðgjafanna seint fullþökkuð, þar sem eina umbun þeirra er kaffihressing og bætt líðan, bæði líkamleg og þó sérstaklega andleg, þar sem því fylgir góð tilfinning að hafa gert gagn eða jafnvel bjargað mannslífi.

Hvaða góða fólk er það sem sýnir samborgurum sínum slíka væntumþykju og ábyrgð að taka sér frí frá vinnu eða námi til þess að sinna slíkri skyldu?

Blóðgjafar geta flestir orðið sem eru á aldrinum 18 til 60 ára séu þeir heilsuhraustir og óháðir lyfjanotkun. Sé fólk reglulegir blóðgjafar getur það gefið blóð til 65 ára aldurs. Sem betur fer á Blóðbankinn stóran hóp velunnara sem koma reglulega í Blóðbankann til blóðgjafa. Árlega er haft reglulegt samband við 8 til 10 þúsund manns sem undantekningalaust bregðast vel við þegar Blóðbankinn kallar.

Til þess að koma til móts við kröfur nútímans og gera fólki auðveldara að gefa blóð kom árið 2002 til landsins blóðbankabíll sem er nokkurskonar blóðbanki á hjólum. Blóðbankabíllinn var kærkomin gjöf frá Rauða krossi Íslands og því viðbót fyrir blóðsöfnunarstarf í landinu því Blóðbankinn þarf sífellt að endurnýja blóðgjafahópinn og má geta þess að nokkur fyrirtæki hafa styrkt rekstur hans. Þar má nefna Sjóvá-Almennar og Skeljung auk þess sem OgVodafone hefur verið aðalstyrktaraðilinnog þá sérstaklega í gerð kynningarefnis.

Blóðbankabíllinn hefur fram til þessa verið á ferðinni tvisvar í viku og hefur hann ekki farið út fyrir 100 kílómetra radíus frá Reykjavík. Á næstunni er áformað að stækka söfnunarsvæði blóðbankabílsins og er það ekki síst hægt vegna stuðnings hinna framsæknu fyrirtækja sem að ofan eru nefnd. Fyrirtækin hafa m.a. styrkt auglýsingar Blóðbankans vegna ferða bílsins en Landspítalinn hefur ekki lagt fé til slíkrar kynningarstarfsemi.

Á næstunni munu landsmenn verða varir við blóðbankabílinn á vegum landsins þar sem hann mun á næstunni hefja söfnun á nýjum stöðum á landsbyggðinni. Á allra næstu dögum mun blóðbankabíllinn safna blóði á Blönduósi og Sauðárkróki auk þess sem fyrirhugað er að stækka söfnunarsvæði bílsins enn frekar á næstu misserum. Til þess að gera Blóðbankanum kleift að senda bílinn út á land hafa heimamenn á söfnunarstöðum lagt á sig ómælt sjálfboðaliðastarf til kynningar vegna komu bílsins. Starfsfólk Blóðbankans er fullt eftirvæntingar og hlakkar mikið til þess að kynnast nýjum blóðgjöfum út um allt land sem ekki hafa haft tök á að gefa blóð fram til þessa. Að lokum langar mig til þess að benda lesendum á heimasíðu Blóðbankans, www.blodbankinn.is, þar sem hægt er að fá upplýsingar um starfsemi Blóðbankans, áætlun blóðbankabílsins og áhrifamiklar reynslusögur blóðþega.

Minnumst þess að hvert og eitt okkar getur þurft á blóðgjöf að halda og höfum í huga að blóðgjöf er lífgjöf.

Höfundur er deildarstjóri í Blóðbankanum.