Blóðgjafafélag Íslands BGFÍ

The Blood Donors Society of Iceland


BGFÍ

Nafn:

BGFÍ Blóðgjafafélag Íslands

Farsími:

8930733

Afmælisdagur:

16. júlí 1981

Heimilisfang:

Snorrabraut 60, 101 Reykjavík

Kennitala:

700781-0389

Bankanúmer:

512-14-100900

Blóðgjafar á Facebook

Blóðgjafar geta nú merkt prófíl mynd sína á Facebook með merki Blóðgjafafélags Íslands með því að smella á merkið hér að neðanTenglar

20051114 ÓHK Að renna blóðið til skyldunnar.doc

Að renna blóðið til skyldunnar

MERKISDAGUR er runnin upp. Hinn 14. nóvember 1953 var Blóðbankinn stofnaður og undirritaður skírður, þótt þetta tvennt eigi í sjálfu sér litið skylt annað en þá staðreynd að leiðir okkar hafa legið saman í áratugi. Blóðbankinn hefur lagt heilbrigðisþjónustu á Íslandi öflugt lið undanfarin 52 ár með miklum stuðningi fjölda óeigingjarnra blóðgjafa.

Án þeirrar miklu þjónustu við sjúka og særða þyrfti að kaupa þennan mikilvæga rauða vökva, blóð, til Íslands. Blóð er dýrmætur vökvi til lækninga og rannsókna. Það er bæði dýrmætt þeim sem þurfa og það er dýrt í krónum talið ef kaupa þarf það erlendis frá. Fáir leiða hugann að mikilvægi frjálsra blóðgjafa fyrr en þörfin kallar að. Of fáir vita hve mörg handtök sérfræðinga og óteljandi framlög sjálfboðaliða búa þar að baki.

Íslendingar eru góðu vanir og telja aðgang að úrvalsblóði sjálfsagðan. Við heyrum til lánsömum minnihluta jarðarbúa. Í þróunarlöndum búa 82% íbúa jarðar. Þar er aðeins safnað 38% af því blóði sem gefið er á jörðinni. Ómetanlegt er að eiga sjálfboðaliða, sem ávallt eru reiðubúnir að gefa af sjálfum sér til að tryggja nægar birgðir blóðs á Íslandi. Þjóðinni er lífsnauðsyn að eiga öruggt blóð til lækninga við sjúkdómum og slysum. Allir heilbrigðir á aldrinum 18 til 65 ára mega gefa blóð og eru hvattir til þess.

Stöðug þörf er nýrra blóðgjafa, kvenna og karla. Fátt er einfaldara og þægilegra ef fólk vill hafa áhrif til góðs á friðsamlegan og heilbrigðan hátt, en að gefa af sjálfum sér, beint frá hjartanu. Sú gjöf, blóðgjöfin bjargar og gerir heiminn betri. Til þess að svo verði mæta 9 þúsund virkir blóðgjafar í Blóðbankann og gefa um 14 þúsund gjafir árlega.

Löngu er tímabært að bæta hag Blóðbankans, sem nú er deild í Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Þessi hægláta stofnun, ef svo má að orði komast, er enn í sama húsinu og fyrir rúmri hálfri öld, en flest annað hefur breytzt í heilbrigðiskerfinu á liðnum árum. Til samanburðar hefur undirritaður vaxið mun meira á undanförnum árum til lítils gagns fyrir heilbrigðiskerfið. Stofnunin á að búa við betri kost og húsnæði. Þörf fyrir nýtt húsnæði starfseminni til handa hefur borið á góma þótt ekki fari hátt. Það hefur vakið vonir undanfarin ár að sjá í 6. gr. frumvarps til fjárlaga, heimild til "að selja fasteign Blóðbankans við Eiríksgötu í Reykjavík og kaupa eða leigja annað hentugra". Nú eru vonir okkar miklar um að úr verði bætt.

Sala Landsímans hefur í för með sér endurbygginu LSH og þar eru úrlausnarefnin mörg og brýn. Það er sérstakt gleðiefni að í samtali okkar Magnúsar Péturssonar forstjóra LSH í liðinni viku lýsti hann því að það væri honum kappsmál að bæta kost Blóðbankans, bæði varðandi rannsóknir og vísindastarf allt og einnig móttöku blóðgjafa. Þar fara saman óskir og vonir Blóðgjafafélags Íslands og forstjórans og mikilvægt að allir leggist á eitt við úrbætur. En þar til fyrsta áfanga verður lokið árið 2012 er brýnt að laga aðstöðu bankans. Starfsfólki Blóðbankans eru færðar þakkir og kveðjur fyrir einstakt og þægilegt viðmót við þröngar aðstæður fyrir hönd blóðgjafa á Íslandi og landsmönnum óskað til hamingju með afmælið.

Höfundur er sýslumaður á Selfossi, blóðgjafi, formaður Blóðgjafafélags Íslands og stjórnarmaður í Alþjóðlegu blógjafasamtökunum, IFBDO.