Blóðgjafafélag Íslands BGFÍ

The Blood Donors Society of Iceland


BGFÍ

Nafn:

BGFÍ Blóðgjafafélag Íslands

Farsími:

8930733

Afmælisdagur:

16. júlí 1981

Heimilisfang:

Snorrabraut 60, 101 Reykjavík

Kennitala:

700781-0389

Bankanúmer:

512-14-100900

Blóðgjafar á Facebook

Blóðgjafar geta nú merkt prófíl mynd sína á Facebook með merki Blóðgjafafélags Íslands með því að smella á merkið hér að neðanTenglar

20060614 ÓHK Alþjóða blóðgjafardagurinn

Alþjóða blóðgjafardagurinn

Í DAG, 14. júní, verður haldinn hátíðlegur Alþjóða blóðgjafardagurinn til þess að þakka blóðgjöfum um allan heim fyrir ómetanlegt framlag þeirra til heilbrigðisþjónustu í heiminum.

Alþjóða blóðgjafardagurinn (World Blood Donor Day) er sameiginlegt verkefni Alþjóða Heilbrigðisstofnunarinnar (WHO), Alþjóða Rauða krossins, Alþjóðasamtaka blóðgjafarfélaga og Alþjóðasamtaka blóðgjafar (International Society of Blood Transfusion). Að baki greindra samtaka standa 192 aðildarríki WHO, 181 landssamtök Rauða krossins, 50 landssamtök blóðgjafarfélaga og þúsundir sérfræðinga um blóðgjafir.

Margir aðrir, eins og Rótarýklúbbar og Lionsklúbbar víða um heim koma að verkinu ásamt heilbrigðisyfirvöldum á hverjum stað.

Blóðgjafafélag Íslands og Blóðbankinn munu leggja sitt af mörkum og verður opið hús í Blóðbankanum við Barónsstíg í Reykjavík miðvikudaginn 14. júní þar sem gestum verður boðið upp á veitingar, pylsur verða grillaðar og fólki gefst kostur á að kynna sér starfsemi Blóðbankans, Blóðbankabílsins og Blóðgjafafélags Íslands. Blómabændur færa blóðgjöfum dagsins blóm sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag.

Minnt er á mikilvægi þess að heilbrigt fólk á aldrinum 18 til 65 ára gefi blóð. Því er sérstaklega fagnað að ungum konum í hópi blóðgjafa fjölgar stöðugt og þær eru orðnar um helmingur nýrra blóðgjafa. Blóðgjafir eru stór þáttur í heilbrigðiskerfinu, sem ekki má gleymast. Með því að halda daginn hátíðlegan er verið að þakka þeim 10 þúsund virku blóðgjöfum sem leggja sitt af mörkum á Íslandi, með nærri 15 þúsund blóðgjöfum ári, fyrir sitt framlag. Ungt fólk er hvatt til þess að gerast blóðgjafar enda er það gott merki um heilbrigðan lífsstíl.

Sú nýlunda var tekin upp í fyrra að halda Blóðbankahlaupið. Þá var það 4. júní en nú hefst það kl. 18:00 sjálfan Alþjóða blóðgjafardaginn og má hlaupa, ganga og hjóla að vild. Drykkir verða boðnir og allir þátttakendur hljóta viðurkenningu. Öllum velunnurum Blóðbankans og blóðgjafa er velkomið að taka þátt í skemmtilegri líkamsrækt og að vera í góðum félagsskap.

Til hamingju með blóðgjafardaginn, íslenzkir blóðgjafar, og þakkir fyrir ómetanlegt, sjálfboðið og óeigingjarnt framlag ykkar.

Höfundur er formaður Blóðgjafafélags Íslands og sýslumaður á Selfossi.