Blóðgjafafélag Íslands BGFÍ

The Blood Donors Society of Iceland


BGFÍ

Nafn:

BGFÍ Blóðgjafafélag Íslands

Farsími:

8930733

Afmælisdagur:

16. júlí 1981

Heimilisfang:

Snorrabraut 60, 101 Reykjavík

Kennitala:

700781-0389

Bankanúmer:

512-14-100900

Blóðgjafar á Facebook

Blóðgjafar geta nú merkt prófíl mynd sína á Facebook með merki Blóðgjafafélags Íslands með því að smella á merkið hér að neðanTenglar

20060716 ÓHK Blóðgjafafélag Íslands 25 ára

Blóðgjafafélag Íslands 25 ára

HINN 16. júlí 2006 verður Blóðgjafafélag Íslands (BGFÍ) 25 ára. Það var stofnað fyrir forgöngu Ólafs Jenssonar yfirlæknis Blóðbankans hinn 16. júlí 1981. Hvers vegna þarf félag blóðgjafa á Íslandi? Er það ekki hlutverk Blóðbankans, sem starfræktur er af almannafé, að sjá um allt sem tilheyrir þeirri athöfn að gefa blóð, bæði þegar blóðgjafinn gefur sinn venjulega skammt og eins þegar blóði eða blóðhlutum er komið til sjúklinga? Nokkuð er til í því. Sem betur fer hefur allt gengið fremur vel í þessum efnum á Íslandi. Blóðgjafar hafa reynzt nægir til á Íslandi og heilbrigðiskerfið hér hefur staðið undir væntingum um að ávallt sé til reiðu nægilegt blóð svo starfsemi þess raskist ekki af þeim sökum..

Hinn 14. nóvember 1953 var Blóðbankinn stofnaður og starfar enn í húsinu sem starfsemin hófst í fyrir nærri 53 árum. Löngu síðar kom til stofnunar félags blóðgjafa á Íslandi, BGFÍ, sem styður starfsemi þessa sérstæða banka og er afar umhugað að bætt verði úr brýnni húsnæðisþörf hans með fullnægjandi hætti. Víða erlendis starfa félög blóðgjafa með miklum blóma og gæta hagsmuna félagsmanna, halda uppi tengslum við yfirvöld, lækna og sjúkrahús, koma að setningu reglna og veita umsögn um frumvörp til laga um starfsemi blóðbanka og málefni blóðgjafa. Hagsmunir fara oftast saman en geta einstökum sinnum skarast. Eitt er ljóst að án blóðgjafanna, karla og kvenna sem leggja blóð sitt af mörkum, myndi starfsemin ekki ganga snurðulaust og heilbrigðiskerfið standa frammi fyrir erfiðum vanda.

Tilgangur BGFÍ kemur fram í 2. gr. laga félagsins. Félagið á að vera vettvangur blóðgjafa og gæta hagsmuna þeirra í samskiptum við heilbrigðisyfirvöld og Blóðbanka, fræða blóðgjafa, almenning og aðra um mikilvægi blóðs til lækninga, afla og veita fræðslu um blóðsöfnun og blóðbankastarfsemi og notkun blóðs á sjúkrahúsum hérlendis og erlendis, styrkja rannsóknir í þágu blóðgjafa og sjúklinga, sérstaklega á sviði blóðónæmisfræði og ónæmiserfðafræði, fræða um vinnslu blóðhluta og blóðþátta úr frumum og blóðvatni og fræða um rannsóknir á blóðefnum og erfðaþáttum blóðsins og þýðingu þeirra fyrir heilbrigða og sjúka og loks, vinna að því að tryggingar blóðgjafa séu í eðlilegu horfi. Sjúklingatryggingar gilda nú um heilbrigða blóðgjafa, en flestum okkar finnst það undarlegt.

Formenn BGFÍ hafa verið fjórir frá upphafi, Ólafur Jensson frá stofnun til 1993, Anna María Snorradóttir til 1994, Björn Harðarson líffræðingur til 2004 og síðan undirritaður.

Árið 1998 gekk BGFÍ í Alþjóða blóðgjafasamtökin IFBDO (International Federation of Blood Donor Organizations). Eitt markmiða IFBDO er sjálfbærni (self-sufficiency) blóðs frá sjálfboðaliðum sem ekki þiggja greiðslu fyrir gjöfina (nonpaid voluntary donors) og auka traust almennings á blóðframboði þjóða með því að samstilla öryggisstaðla og eftirlit með blóðgjöfum. Formaður BGFÍ situr nú í stjórn samtakanna.

Mikilvægi blóðs fyrir starfsemi heilbrigðiskerfisins á Íslandi er óumdeilt. Það hefur sama gildi fyrir sjúklinga og lyf, en verður ekki framleitt heldur fæst aðeins fyrir blóðgjöf.

Í haust stendur BGFÍ fyrir ráðstefnu þjóða við Eystrasalt og Norðurlandanna um blóðgjöf, dagana 28. september til 1. október nk. á Íslandi. Fjallað verður um eitt mikilvægasta verkefnið framundan, að fjölga blóðgjöfum.

Höfundur er er formaður Blóðgjafafélags Íslands og sýslumaður á Selfossi.