1. grein
Félagið heitir Blóðgjafafélag Íslands og er hagsmunafélag blóðgjafa með aðsetur í Reykjavík, en starfsvettvangur þess nær til alls Íslands.
2. grein
Tilgangur félagsins er:
a) Að vera vettvangur blóðgjafa og gæta hagsmuna þeirra í samskiptum við heilbrigðisyfirvöld, Blóðbankann og aðra.
b) Að vinna að því að afla nýrra blóðgjafa í samvinnu við Blóðbankann og önnur félagasamtök sem vilja taka þátt í því starfi. Heimilt er í þessu skyni að stofna ungmennadeild í félaginu
c) Að fræða blóðgjafa og almenning um mikilvægi blóðsöfnunar, um blóðhlutavinnslu og það hve mikla þýðingu blóð hefur til lækninga.
d) Að vinna að því að tryggingamálum blóðgjafa sé sérstaklega sinnt.
e) Að veita þeim blóðgjöfum sem náð hafa stórum áföngum í blóðgjöf viðurkenningar.
3. grein
Tilgangi sínum vill félagið ná:
a) Með því að afla þekkingar um blóðgjöf eins og henni er best háttað í nágrannalöndum okkar til dæmis með þátttöku í alþjóðastarfi blóðgjafafélaga.
b) Með fræðslugreinum í blöðum og tímaritum, fræðsluerindum og fræðslukvikmyndum, eftir því sem efni og aðstæður leyfa.
c) Með því að efla samvinnu og fræðslu aðila sem láta til sín taka í blóðsöfnunarstarfi.
4. grein
Félagar geta orðið allir blóðgjafar og aðrir áhugamenn um blóðgjafastarfsemi og vöxt hennar og viðgang, sem þess óska með skriflegum hætti.
5. grein
Stjórn félagsins skipa sjö menn og skulu kjörnir til eins árs í senn. Formaður og varaformaður skulu kjörnir sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.
6. grein
Starfsár félagsins er almanaksárið. Aðalfund skal halda fyrir lok mars ár hvert. Skal hann boðaður með auglýsingu í dagblöðum eða á vefsíðum BGFÍ og Blóðbanka Íslands með minnst viku fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Allir félagar hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Verkefni aðalfundar eru:
a) Formaður tilnefnir fundarstjóra.
b) Stjórnin gefur skýrslu um starfsemi félagsins á liðnu ári.
c) Gjaldkeri leggur fram til samþykktar endurskoðaða reikninga ársins
d) Lagabreytingar, ef einhverjar eru.
e) Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga.
f) Formaður gerir grein fyrir helstu verkefnum, sem framundan kunna að virðast.
g) Árgjöld ákveðin.
h) Önnur mál.
7. grein
Félagsfund skal halda, þegar stjórnin ákveður eða minnst tuttugu félagsmenn æskja þess og tilgreina fundarefni. Stjórnarfund skal halda, þegar formaður ákveður eða meirihluti stjórnarmanna æskir þess. Stjórnin getur falið einstökum félagsmönnum að inna af hendi störf í þágu félagsins og einnig skipað sérstakar nefndir í sama tilgangi.
8. grein
Lögum þessum má breyta á aðalfundi, og þarf minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða til breytinga.
9. grein
Komi til félagaslita, skal ráðuneytisstjóri Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, forseti læknadeildar Háskólans og forstöðumaður Blóðbankans ráðstafa eignum félagsins til styrktar málefnum, sem samræmast best tilgangi félagsins.
Samþykkt á aðalfundi 11.feb 2016.