Það fer að nálgast öld frá því að fyrstu blóðgjafir áttu sér stað á íslandi, í fyrstu voru aðferðir og aðstæður til þeirra hluta frekar frumstæð, auk þess að þá var blóð bara blóð. Á allri þeirri vegferð síðan hefur tækninni, þekkingu og vísindunum farið fram svo um munar. Nú er ekki blóð bara blóð! Blóð er flokkað í mismunandi flokka og þeir skilgreindir jákvæðir eða neikvæðir. Flestir Íslendingar eru í blóðflokknum O+ en á móti eru þeir sem eru í blóðflokknum O- væntanlega verðmætastir því þeirra blóð má gefa öllum öðrum í hvaða blóflokki sem þeir tilheyra jákvætt eða neikvætt.
Til að standa undir þessum væntingum þarf blóðgjafi að vera orðin 18 ára og ekki eldri en 65 (70) og við góða heilsu. Gæta þarf hvort blóðgjafi moti einhver lyf að staðaldri og má til dæmis ekki gefa ef notuð eru ákveðin lyf sem hjúkrunarfræingar Blóðbankans gefa upplýsingar um í hverju tilfelli fyrir sig.
Ég var 18 ára gamall þegar ég fór fyrstu ferð mína með vinnufélögum mínum hjá Pósti og Síma í Blóðbankann við Barónsstíg og gaf mína fyrstu blóðgjöf. Þetta var ólýsanleg stund, á þeim tíma var boðið upp á deyfingu (staðdeyfing í olnbogabót) áður en stóru nálinni var stungið í æðina. Fáeinum árum síðar uppgötvuðu menn að mestu óþægindin voru að fá þessa deyfingu svo henni var hætt og væntanlega mikil sparnaður í þeirri ráðstöfun. Alla tíð síðan hef ég aldrei fundið nema smá kitl þegar nálinni er stungið í æðina. Eftir hverja blóðgjöf býður Blóðbankinn uppá veitingar, kaffi og með því og í hádeginu er auk þess súpa. Margir finna fyrir ákveðnum létti eftir blóðgjöf og ég líki því við olíuskipti á bíl nema að endurnýjuni kemur innan frá og þannig tel ég að það skapi ákveðið heilbrigði því öll göngum við í endurnýjun alla lífsævina og þessi endurnýjun tel ég bæta um betur. Blóðgjöf er sjálfboðastarf því engin fær greitt fyrir blóðgjöfina sem slíka og því er mikilvægt að hafa góða nýliðun blóðgjafa, því um síðir eldumst við, að minnsta kosti flest okkar. Einnig er mikilvægt að njóta skilnigs vinnuveitenda, svo blóðgjafar verði ekki fyrir tekjutapi þessi fáu skipti á ári er þeir leggja til þessa mikilvægu auðlind sem heilbrigðiskerfi okkar býr að. Blóðgjöf getur tekið allt frá einum og upp í fjóra tíma, það fer eftir hvort að gefin er heilgjöf eða þeir sem búa yfir góðu æðakerfi, gefi í svokallaðri blóðskiljuvél en slík athöfn tekur aðeins lengri tíma.
Blóðgjafafélag Íslands var stofnað 1981 af Ólafi Jenssyni þáverandi yfirlækni Blóðbankans og fljótlega var farið að heiðra blóðgjafa fyrir framlag þeirra með viðurkenningarskjölum og þá rann mér í brjóst kapp um að ná að verða fyrstur í 100 blóðgjafir en það tókst ekki en hefur haldið mér á vaktinni og í dag hef ég náð að gefa 162 sinnum blóð og er enn að. Blóðgjafafélagið mun á næsta ári í júlí fagna 40 ára afmæli sínu og verða vonandi fagnaðir það árið, ég hvet alla sem góðri heilsu eiga að fagna að gerast blóðgjafi, þú veist aldrei hvenær einhver nákominn þér þarf á því að halda.
Jón Svavarsson formaður BGFÍ
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25.maí 2020