Skip to content

Blóðbankinn á tímum covid

Blóðbankinn var stofnaður fyrir 67 árum, hinn 14. nóvember 1953, og væri um mann að ræða teldist viðkomandi ellilífeyrisþegi. En þessi merka heilbrigðisstofnun er síung og mikilvægi hennar fer vaxandi ef eitthvað er. Covid-19- faraldurinn hefur sett strik í reikninginn. Blóðbankabíllinn er ekki lengur á ferðinni innan og utan Reykjavíkur og því eru allir blóðgjafar hvattir til þess að koma í Blóðbankann á Snorrabraut 60 í Reykjavík eða á Glerártorgi á Akureyri.

Vegna þarfa íslenzks samfélags er Blóðbankanum nauðsynlegt að afla 16.000 blóðgjafa á ári. Til þess að svo geti orðið verða 70 manns að gefa blóð daglega. Um það bil 8-10.000 virkir blóðgjafar gefa sem svarar 15.000 blóðgjöfum ár hvert. Heilbrigðir blóðgjafar standa fyrir traustri og öruggri blóðgjöf. Þess vegna er mikilvægt að þeir viti hvaða reglur gilda um blóðgjafir. En mikil áherzla er lögð á það að tryggja að blóð til ráðstöfunar sé heilbrigt og uppfylli strangar kröfur þar að lútandi. Að gefa þessa dýrmætu gjöf, blóð beint frá hjartanu, er vænleg leið til þess að láta gott af sér leiða með lítilli fyrirhöfn. Þannig er unnt að bjarga mannslífi á einfaldan hátt. Blóðgjöf tekur vanalega með öllu tilheyrandi um 30 mínútur. Sjálf gjöfin er lítill hluti þess tíma.

Það er verðugt að minnast 67 ára afmælis Blóðbankans um þessar mundir og verða við áskorun starfsfólks hans og gefa blóð. Blóðbankinn hefur að sjálfsögðu þróast á þessum langa tíma sem þó er skammur hluti Íslandssögunnar en þess mikilvægari. Að eiga aðgang að heilbrigðu blóði er heilbrigðiskerfinu mikilvægara en margir halda. Blóðgjafir til sjúklinga, slasaðra og þeirra sem undirgangast aðgerðir eru alger nauðsyn. Krabbameinssjúkir þurfa blóðgjafir, en það vill oft gleymast í erli dagsins. Því miður eru allt of margir að fást við þann bitra kaleik.

Löngu er tímabært að skrifa bók um Blóðbankann og mikilvægi hans í samfélaginu og fyrir aðrar heilbrigðisstofnanir. Það væri verðugt verkefni að gefa út slíkt rit eftir þrjú ár þegar þessi góði banki sem lifað hefur bankahrun og önnur hrun í samfélaginu verður 70 ára. Tímabært er að huga að því að taka saman sögu hans og aðdraganda að stofnun.

Í erli dagsins hugsa fæstir um mikilvægi blóðgjafa og þess sem að baki býr. Án viljugra og fórnfúsra blóðgjafa væri hlutverk Blóðbankans rýrt. Það er þjóðinni einnig bæði mikils virði og nauðsynlegt að vera sjálfbær um útvegun blóðs til innanlandsþarfa.

Á það skal minnt að þau sem eru á aldrinum 18-65 ára, bæði konur og karlar, ná að minnsta kosti meira en 50 kílóa þyngd og eru heilsuhraust eiga þess kost að gerast blóðgjafar. Það er góður kostur og rétt er að hvetja alla til þess að hugleiða þetta val. Nú er málum svo komið vegna Covid-19-faraldursins að panta þarf tíma í blóðgjöf og eru allir virkir blóðgjafar hvattir til þess, annaðhvort á heimasíðu Blóðbankans http://blodbankinn.is/ eða í síma: 543 5500 í Reykjavík eða á Akureyri í síma 824 2423. Með þeim hætti er Blóðbankanum færð afmælisgjöf sem að sjálfsögðu má endurtaka svo oft sem vilji og reglur segja til um.

Með stofnun Blóðbankans fyrir nærri sjö áratugum var stigið heillaskref í þágu þjóðarinnar, sem er nú sjálfbær um heilbrigt og gott blóð þeim til gagns sem þurfa. En til þess að svo verði um ókomna tíð treystum við á stóran hóp sjálfboðaliða sem dagsdaglega fer lítið fyrir. Það eru þeir sem sjálfviljugir og án þess að ætlast til neins endurgjalds mæta og gefa hluta af sjálfum sér lausir við nokkra eigingirni.

Að gefa blóð er gott,
gagnlegt þeim er þiggja.
Lítið mál, ljúft og flott,
meðan gjafar liggja.

Starfsfólkið hugsar vel um blóðgjafana og þeir liggja á þægilegum bekk meðan blóð streymir og svo má ekki gleyma veitingum og góðu viðmóti. Blóðgjöfum, starfsfólki og að sjálfsögðu Blóðbankanum er óskað til hamingju með daginn og framtíðina.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, laugardaginn 14.nóvember 2020 og er eftir Ólaf Helga Kjartansson Ólafur Helgi Kjartansson,Blóðgjafi og stjórnsýslufræðingur og fyrrum formaður Blóðgjafafélags Íslands.