Blóðgjafafélag Íslands BGFÍ

The Blood Donors Society of Iceland


BGFÍ

Nafn:

BGFÍ Blóðgjafafélag Íslands

Farsími:

8930733

Afmælisdagur:

16. júlí 1981

Heimilisfang:

Snorrabraut 60, 101 Reykjavík

Kennitala:

700781-0389

Bankanúmer:

512-14-100900

Blóðgjafar á Facebook

Blóðgjafar geta nú merkt prófíl mynd sína á Facebook með merki Blóðgjafafélags Íslands með því að smella á merkið hér að neðanTenglar

20031114 ÓHK Blóðbankinn 50 ára

Hinn 14. nóvember 2003 er merkilegur dagur - Blóðbankinn 50 ára

Í dag, 14. nóvember, er Blóðbankinn 50 ára. Dagurinn er mér kær af ýmsum ástæðum. Við höfum verið í nánum tengslum Blóðbankinn og undirritaður í nærri 32 ár, allt frá því að við uppgötvuðum það nokkrir félagar í Menntaskólanum í Reykjavík að krækja mætti sér í aukafrí með því að verða við áskorun Blóðbankans og fara til þess að gefa þar blóð. Slík ástæða fjarveru úr tíma var litin mildari augum en aðrar, sem gjarnan voru léttvægari. Sjálfur náði ég þeim áfanga fyrir skömmu að verða 50 ára. Því til viðbótar var afi minn, sem að sínu leyti er ábyrgur fyrir nafni mínu, við erum alnafnar, fæddur 14. nóvember 1895. Á afmælisdegi hans fyrir hálfri öld, sem jafnframt var stofndagur Blóðbankans, hlaut undirritaður skírn. Hvort þessi tilviljun hefur ráðið einhverju um gott samband okkar, mín og bankans, skal ósagt látið.

Á þeim rúmu þremur áratugum frá upphafi sambands okkar í marz 1972 hefur fátt breytzt í þessari ágætu stofnun. Starfsfólkið er reyndar ekki það sama en viðmótið alltaf jafnalúðlegt, veitingar góðar og alltaf jafngaman að líta við. Húsnæðið varð á einhvern hátt stærra í huga manns vegna starfsfólksins. Í raun hefur það ekkert stækkað, þrátt fyrir að 15.000 blóðgjafir þurfi árlega til þess að anna eftirspurninni. Það þýðir að jafnmargir handleggir koma í húsið svo í þá verði stungið. Að sjálfsögðu fylgir hinn, ásamt líkama og sál. Oft hefur verið sagt að góð sál fylgi blóðgjöfum. Allt of oft gleymist að ekki er sjálfgefið að heilbrigt fólk, karlar og konur, gefi sér stund og leggi leið sína í Blóðbankann til að gefa beint frá hjartanu.

Nóg af hjartahlýju í húsinu

Einhvern veginn er það svo að þessi góða stofnun og þeir er þar starfa tengjast hjartahlýju, því nóg er af henni í húsinu, þótt lítið sé og þröngt, og myndu sjálfsagt margir starfsmenn annarra fyrirtækja og stofnana hafa látið oft í sér heyra yfir þrengslum og telja úrbóta þörf varðandi aðstöðu til að rækja þar mikilvæg störf sín.

Í ,,Blóðbankanum við Barónsstíg" er heilbrigðisþjónustu lagt verulega öflugt lið. Ef sú þjónusta væri ekki fyrir hendi þyrfti að kaupa blóð til Íslands með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn. Því er það svo, að stofnunin ætti að búa við bezta fáanlega kost. Þörf fyrir nýtt húsnæði starfseminni til handa hefur borið á góma þótt ekki fari hátt. Það vakti því vonir að sjá í 6. gr. frumvarps til fjárlaga, lið 2.19, er gert ráð fyrir heimild til ,,að selja fasteign Blóðbankans við Eiríksgötu í Reykjavík og kaupa eða leigja annað hentugra". Án þess að hafa um það frekari orð vöknuðu vonir mínar um að nú hilli undir langþráða bót á húsnæði bankans. Fari menn inn á heimasíðu Blóðbankans er þar að finna, undir liðnum fréttir, greinargerð um nýbyggingu og tölvumynd af viðbyggingu núverandi húss. Kostnaður er ætlaður 250 milljónir króna. Auk þess fylgir endurbót núverandi húss.

Fáar, ef nokkrar, afmælisgjafir þjóðarinnar til bankans á afmælisárinu myndu gleðja okkur meira, þennan stóra en þögla hóp blóðgjafa, en nýtt hús. Til hamingju með afmælið og þakkir fyrir samveruna.

Eftir Ólaf Helga Kjartansson

Höfundur er sýslumaður á Selfossi, blóðgjafi, varaformaður Blóðgjafafélags Íslands og lætur sér annt um Blóðbankann.