BGFÍ fagnar 40 ára starfsamæli í dag 16.júlí

Blóðgjafafélag Íslands (BGFÍ) fagnar þeim merku tímamótum að vera 40 ára í dag!

Félagasamtökin voru stofnuð þann 16.júlí 1981 þar sem Ólafur Jensson, þáverandi forstöðumaður Blóðbankans átti frumkvæðið að koma á laggirnar. Tilgangur félagsins er að efla fræðslu til blóðgjafa, almennings og stjórnvalda um mikilvægi blóðs til lækninga.

Félagið er opið öllum, hvort sem það eru virkir blóðgjafar eða aðrir áhugasamir sem vilja leggja sitt af mörkum og hefur félagið aldrei rukkað nein félagsgjöld enda vegleg gjöf að mæta reglulega í Blóðbankann.

Helsta tekjulind félagsins í upphafi voru tekjur af útflutning á plasma en það varði stutt og hefur félagið reitt sig á samfélagsstyrki og sjálfaboðavinnu stjórnar og blóðgjafa undanfarin ár.

Eitt af því sem BGFÍ gerir árlega er að veita viðurkenningar til þeirra blóðgjafa sem hafa gefið mörgum sinnum og nú í ár fengu nokkrir blóðgjafar heimboð á Bessastaði þar sem Forseti Íslands afhenti þeim viðurkenningarskjöl fyrir sitt framlag til bjargar mannslífum.

Tímamót í sögu félagsins 19.maí
Þann 19.maí síðastliðin urðu merk tímamót í sögu félagsins þegar fyrsti kvenmaðurinn var kosinn formaður félagsins og samanstendur stjórnin í dag af fjórum konum og þremur karlmönnum.

Um þessar mundir er félagið að skoða hvað það getur gert til að efla sýnileika félagsins, vekja athygli á tilgangi þess og fylgja eftir markmiðum og síðast en ekki síst fjölga blóðgjöfum!

Breytingar og stór hagsmunamál fyrir blóðgjafa

Blóðgjafir eru í stöðugri þróun og hafa orðið þó nokkrar breytingar varðandi hverjir mega gefa blóð og hverjir ekki, til dæmis varðandi ákveðin lyf. Nú mega sem dæmi þeir sem eru á lyfjum við háþrýsting, lyfjum við  vanstarfsemi á skjaldkirtli og lyfjum vegna ofvirkni gefa blóð en hjúkrunarfræðingur fer yfir lyfjasögu hvers og eins og það metið hverju sinni.

Eitt helsta og stærsta hagsmunamál félagsins er að stækka hóp blóðgjafa. Í dag mega samkynhneigðir karlmenn ekki gefa blóð, hvort sem þeir séu í langtíma sambúð eða ekki. Aftur á móti mega samkynhneigðar konur gefa blóð og kona þarf einungis að fresta blóðgjöf í 12 mánuði ef hún hefur haft samfarir við karlmann sem hefur einhverntímann haft kynmök við annan karlmann.

Þann 21.júní 2021 var stigið stórt skref en þennan dag varð leyfilegt fyrir samkynhneigða karlmenn að gefa blóð, blóðplasma og blóðflögur undir ákveðnum skilyrðum í Englandi, Skotlandi og Wales. Samkynhneigðir karlmenn sem hafa átt sama maka í a.m.k. 3 mánuði geta nú gerst blóðgjafar. Áður fyrr var samkynhneigðum óheimilt að gefa blóð sökum hættu á HIV/AIDS og öðrum smitsjúkdómum. Þessi breyting er aðeins fyrsta skrefið, enn verður hver einstaklingur metin með tilliti til áhættu, en jákvætt skref í að fjölga blóðgjöfum í heiminum sem svo sannarlega er skortur á.

Þetta er skref sem við hjá BGFÍ viljum sjá heilbrigðisvöld á Íslandi taka til skoðunar.

Eftirspurn og framboð

Eftirspurnin eftir blóðgjöfum hefur ekki aukist en með tækniframförum hefur þurft minna blóð við aðgerðir en það er alltaf mikil þörf í tengslum við meðferðir við eins og við krabbamein.

Blóðbankinn þarf á um 2000 nýjum blóðgjöfum að halda á hverju ári og um 14.000-15.000 blóðgjafir. Blóðbankabíllinn hefur þar komið sterkt inn, samfélagsmiðlar eins og Facebook, Instagram, heimasíður og þegar og ef neyðarástand hefur skapast þá hefur alltaf verið gott að leita til fjölmiðla.

BGFÍ leggur einnig sitt af mörkum og er að færa sig inn í 21.öldina og nota meira samfélagsmiðla (Facebook og LinkedIn) til að vekja athygli á starfsemi félagsins og þeim verkefnum sem það sinnir.

Afmælisárið

Það hefur eitt og annað sett strik sitt í afmælisár félagsins en það er ýmislegt í bígerð. Þess ber að geta að nýverið veitti heilbrigðisráðherra félaginu styrk í tilefni afmælisins sem verður nýttur til að halda upp á tilefnið.

Áhugasamir geta fylgst með verkefnum félagsins hér á vefnum okkar og gerst meðlimir með því að skrá sig hér og fara jafntframt á póstlista félagsins.

Til hamingju með daginn kæru blóðgjafar og munum að blóðgjóf er lífgjöf!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *